Lífið

Þakkar Hrafni fyrir ferilinn

Noomi Rapace segist hafa uppgötvað nýjan heim þegar hún var við tökur á víkingamyndinni Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá hafi hún ákveðið að verða leikkona.Fréttablaðið/Arnþór
Noomi Rapace segist hafa uppgötvað nýjan heim þegar hún var við tökur á víkingamyndinni Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá hafi hún ákveðið að verða leikkona.Fréttablaðið/Arnþór

Hin sænska Noomi Rapace er stolt af þeim tíma sem hún eyddi á Íslandi. Hún er þakklát Hrafni Gunnlaugssyni fyrir að kveikt í sér draum um að gerast leikkona.

Noomi Rapace, leikkonan sem sló eftirminnilega í gegn í hlutverki Lisbeth Salander, þakkar Hrafni Gunnlaugssyni og kvikmyndinni Í skugga hrafnsins fyrir að hafa kveikt í leikkonudraumnum sem hún hafði. Þetta kemur fram í viðtölum við bresk blöð. Þriðja myndin í Millennium-þríleiknum verður frumsýnd í Bretlandi um helgina og bresk blöð hafa birt fjölda viðtala við sænsku leikkonuna sem leikur einnig stórt hlutverk í Sherlock Holmes 2.

Rapace hefur hingað til leyft blaðamönnum að fjalla um íslenskan uppruna sinn en í nýlegum viðtölum hefur hún gert dvöl sinni hér á landi hærra undir höfði. Noomi flutti til Íslands, nánar tiltekið á Flúðir, þegar móðir hennar tók saman við íslenskan mann og þær mæðgur bjuggu hér saman í þrjú og hálft ár.

„Á tímabili var ég orðin meiri Íslendingur en Svíi og vildi ekki fara aftur til Svíþjóðar. Þegar við fluttum til Stokkhólms lýsti ég því yfir á hverju ári við alla sem vildu heyra að ég ætlaði að flytja aftur heim til Íslands,“ segir Noomi meðal annars í samtali við skoska blaðið Herald Scotland.

Þegar hún Noomi var aðeins sjö ára fékk hún óvænt lítið hlutverk í víkingamynd Hrafns Gunnlaugssonar, Í skugga hrafnsins. Noomi segir að þótt hún hafi ekki fengið að segja neitt þá hafi hún þarna áttað sig á því hvað hana langaði til að gera í framtíðinni. „Á tökustaðnum opnaðist nýr heimur fyrir mér, ég held að ég hafi ákveðið á þeim tímapunkti að mig langaði til að verða leikkona.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.