Innlent

Talsmaður neytenda sendi skuldurum skilaboð

Talsmaður neytenda hefur sent bönkum og bílalánafyrirtækjum landsins tilmæli um að fólk og fyrirtæki með gengistryggð lán greiði aðeins fasta krónutölu af hverri milljón - þar til Hæstiréttur sker úr um vaxtakjör hinna ólöglegu lána. Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja tekur vel í tilmælin.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda birti tilmælin nú skömmu fyrir fréttir. Hann segir þau milda áhrif óvissunar í þágu neytenda.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur eitt lánafyrirtæki valið að fara þessa leið - Frjálsi fjárfestingarbankinn, en þar munu menn rukka um 5500 krónur fyrir hverja milljón af upphaflegum höfuðstól. Fari hinir að tilmælum talsmanns neytenda má ætla að sú tala verði höfð til hliðsjónar.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, kvaðst í samtali við fréttastofu fastlega búast við því að fjármálafyrirtækin skoði tilmælin með opnum huga. Ætla má að bankar og bílalánafyrirtæki bregðist skjótt við - því óðum styttist í eindaga á þeim rukkunum sem bárust um mánaðamótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×