Enski boltinn

Hiddink getur ekki komið Chelsea til bjargar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink fagnar bikarmeistaratitlinum með Chelsea.
Guus Hiddink fagnar bikarmeistaratitlinum með Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingurinn Guus Hiddink á enga möguleika á því að losa sig frá stöðu landsliðsþjálfara Tyrklands fari svo að Roman Abramovich leiti til hans. Það er farið að hitna undir Carlo Ancelotti á Stamford Bridge eftir skelfilegt gengi liðsins að undanförnu en umboðsmaður Guus Hiddink segir að þjálfarinn sé fastur í sínu starfi í Tyrklandi.

Hinn 64 ára gamli Hiddink tók tímabundið við af Luiz Felipe Scolari hjá Chelsea fyrir tveimur árum síðan og tókst þá að koma Chelsea-liðinu aftur á fullt skrið. Chelsea varð meðal annars bikarmeistari undir hans stjórn.

Hiddink hefur verið þjálfari tyrkneska landsliðsins í sex mánuði eftir að hafa skrifað undir fjögurra ára samning. Hann var þjálfari Rússlands þegar hann tók við Chelsea á sínum tíma en nú eru kringumstæðurnar allt aðrar.

Cees van Nieuwenhuizen, umboðsmaður Guus Hiddink, var spurður út í möguleikann á því að Hiddink komi Chelsea aftur til bjargar.

„Ég tel að það sé ómögulegt. Það var mun auðveldara að semja við rússneska sambandið árið 2009 þar sem að Abramovich borgaði hluta launa hans þar," sagði Van Nieuwenhuizen.

„Nú bíður hans krefjandi verkefni að koma Tyrklandi inn á EM 2012. Tyrkneska sambandið mun aldrei leyfa honum að vera í tvölföldu starfi," sagði Van Nieuwenhuizen.

„Guus mun heldur aldrei íhuga það að hætta með tyrkenska landsliðið og koma til London. Hann naut tímans hjá Chelsea en það eru enginn möguleiki á því að hann komi aftur," sagði Van Nieuwenhuizen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×