Innlent

Dagur og Óttarr settu saman stundaskrá

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir góðan gang í viðræðum Samfylkingarinnar og Besta flokksins.
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir góðan gang í viðræðum Samfylkingarinnar og Besta flokksins. Mynd/Anton Brink

„Við vorum að setja niður stundaskrá fyrir vikuna," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar en hann og Óttarr Proppé, nýr borgarfulltrúi Besta flokksins, hittust á fundi í morgun þar sem lögð voru drög að viðræðum Besta flokksins og Samfylkingarinnar um myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Dagur var í hádegismat með starfandi borgarfulltrúum Samfylkingarinnar þegar fréttastofa náði tali af honum. Dagur og Óttarr útbjuggu dagskrá fyrir viðræðurnar sem munu að sögn Dags eiga sér stað næstu daga.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar hófu óformlegar viðræður um myndun nýs meirihluta í gærkvöldi og verður þeim framhaldið í dag. Besti flokkurinn er með sex kjörna borgarfulltrúa og Samfylkingin þrjá, þannig að sameiginlega eru flokkarnir með níu af 15 borgarfulltrúum. Besti flokkurinn setur þau skilyrði að Jón Gnarr verði borgarstjóri, en Dagur B. Eggertsson gerir borgarstjórastólinn ekki að skilyrði fyrir samstarfi.

Dagur segist reikna með að allir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar beggja flokka munu koma að þessum viðræðum. Dagur og Jón Gnarr hittust á fundi í gær. Dagur kvað þá ekki hafa ekki hist í dag, en hafa rætt saman í gegnum síma. „Þetta er allt í farvegi. Það er lítið að frétta í augnablikinu, en það er góður gangur í þessu," segir Dagur. 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×