Lífið

Einn frægasti kvenhugsuður sögunnar

Kvikmyndin Agora eftir Óskars­verðlaunahafann Alejandro Amenábar er frumsýnd á Íslandi um helgina. Hún fjallar um síðustu daga Rómaveldis og hetjulega baráttu heimspekingsins, stærðfræðingsins og konunnar Hypatiu fyrir því að mikilvægri þekkingu Forn-Grkkja sé bjargað frá glötun.

Agora gerist í hinni fornu borg Alexandríu. Þar kennir Hypatia við platónskan skóla borgarinnar á miklum óróatímum þegar kristin trú er smám saman að ná undirtökunum og heiðingjar eiga undir högg að sækja. Það er Rachel Weisz sem leikur heimspekinginn Hypatiu en einkalíf Weisz hefur verið töluvert í kastljósinu eftir að fjölmiðlar greindu frá því að hún ætti hugsanlega í ástarsambandi við Daniel Craig.

Erfiðlega hefur gengið hjá aðstandendum Agoru að koma myndinni í dreifingu þrátt fyrir að hún hafi hlotið sjö verðlaun á Goya-hátíðinni, spænsku kvikmyndahátíðinni. Hún er engu síður ein tekjuhæsta spænska myndin frá upphafi en það virðist ekki hafa kveikt í dreifingaraðilunum og því ratar hún frekar seint hingað til Íslands enda frumsýnd á síðasta ári.

Myndin hefur fengið misjafna dóma hjá gagnrýnendum og þá hafa sumir bókstafstrúarmenn kvartað yfir því að Agora dragi upp fremur dökka mynd af kristnum mönnum. Sjálft Vatikanið hefur þó lýst því yfir að það sjái enga annmarka á henni en starfsmenn þess komu meðal annars að því að velja kristna texta sem lesnir eru upp í myndinni.- fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.