Innlent

Sumar skoðanir Beatys taldar birtingarhæfar en aðrar ekki

Ross Beaty
Ross Beaty

Iðnaðarráðuneytið hefur afhent Fréttablaðinu hluta af bréfi sem Ross Beaty, forstjóri Magma, sendi Katrínu Júlíusdóttur iðnaðaráðherra 18. ágúst síðastliðinn. Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, var sent afrit af bréfinu.

Ráðuneytið afhendir ekki bréfið allt heldur hefur það með vísan í upplýsingalög fellt út mikilvæga hluta bréfsins, bæði málsgrein þar sem ráðuneytið segir að fjallað sé um viðkvæma hagsmuni Magma og eins setningu þar sem ráðuneytið segir að Ross Beaty lýsi persónulegum skoðunum.

Ekkert vantar þó á að skoðanir Beatys á ýmsum málum komi fram í þeim hlutum bréfsins sem ráðuneytið telur sér heimilt að birta án þess að brotið sé gegn lögum. Í hinum opinberu köflum bréfsins lýsir hann meðal annars þeirri skoðun að hann harmi áframhaldandi deilur um aðkomu Magma að HS Orku og kveðst í einlægni hafa talið að fyrirtækinu yrði tekið fagnandi hér á landi.

Þá segist hann hafa þá stefnu að búa til fyrirtæki í framleiðslu á hreinni orku á heimsvísu og segist einlægur umhverfisverndar-sinni. Það hafi tekið hann sárt að verða fyrir árásum á mannorð sitt. Í umræðum hér á landi hafi borið á alls kyns vitleysu og röngum upplýsingum.

Áður er komið fram að í bréfinu býður Beaty íslenskum stjórnvöldum til viðræðna um að þau eignist rétt til að kaupa hlut í fyrirtækinu og til þess að endurskoða þann tíma sem fyrirtækið fær nýtingarrétt á auðlindum á Reykjanesi.

Þá greindi Fréttablaðið frá því í gær að í bréfinu lýsi Beaty þeirri skoðun að hann vilji síður selja græna orku sem HS Orka framleiðir til álvers Norðuráls. Setninguna með þeirri skoðun Beatys er ekki að finna í hinni ritskoðuðu útgáfu bréfsins sem iðnaðarráðuneytið gerði opinbera í gær. - pg





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×