Innlent

Ólíklegt að það gjósi víðar við Eyjafjallajökul

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eldgosið er mikið sjónarspil. Mynd/ Vilhelm.
Eldgosið er mikið sjónarspil. Mynd/ Vilhelm.
Litlar líkur eru á því að eldgos verði annarsstaðar við Eyjafjallajökul, segir almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Þetta var niðurstaða fundar almannavarnanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu með almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og vísindamönnum í gær. Eyjafjallajökull verður áfram lokaður fyrir umferð.

Ákveðið var að aflétta lokun sem verið hefur á umferð inn í Þórsmörk og verður vegurinn þangað opnaður í hádeginu. Vegagerðin lagfærði veginn um helgina en hann er engu að síður aðeins fær breyttum jeppum og öflugum rútum.

Öll umferð fólks um Hrunagil og Hvannárgil, þar sem hraun rennur niður, er bönnuð vegna hættu á eitruðu gasi sem þar kann að safnast fyrir og vegna hættu á gufusprengingum. Vísindastofnanir hafa bannað sínu fólki að fara inn í gilin vegna þessarar hættu.

Ástand gönguleiða í Þórsmörk er breytilegt og eru þeir sem hyggja á göngu þaðan hvattir til að setja sig í samband við staðarhaldara í skálum sem þar eru áður en lagt er af stað.

Lögregla og björgunarsveitir verða með eftirlit og gæslu í Þórsmörk og við eldstöðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×