Enski boltinn

Ólíklegt að Hiddink taki við Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink.
Guus Hiddink. Nordic Photos / Getty Images
Ólíklegt er að Hollendingurinn Guus Hiddink muni taka við starfi knattspyrnustjóra hjá Liverpool. Þetta fullyrðir umboðsmaður hans, Cees van Nieuwenhuizen.

Rafa Benitez hætti hjá félaginu fyrr í vikunni og leitar það nú að nýjum stjóra. Hiddink er einn þeirra sem hafa verið orðaðir við starfið.

„Guus hefur sýnt í gegnum tíðina að hann hefur staðið við sína samninga," sagði Van Nieuwenhuizen en ekki er langt síðan að Hiddink samþykkti að taka að sér þjálfun tyrkneska landsliðsins.

„Það er engin ástæða fyrir því að hann ætti að breyta hegðun sinni nú. Fyrir tveimur vikum hafnaði hann Inter af sömu ástæðu. Ég veit að það á aldrei að segja aldrei en ég tel þetta óhugsandi."

Samkvæmt enskum fjölmiðlar þykja Roy Hodgson og Louis van Gaal, stjóri Bayern München, líklegastir til að taka við Liverpool. Fleiri hafa verið orðaðir við stöðuna, til að mynda Martin O'Neill, Mark Hughes, Slaven Bilic og Frank Rijkaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×