Innlent

Þrýstingurinn hefur ekki minnkað - enn hætta á að gosið fari undir jökul

Mynd/Valgarður Gíslason
Almannavarnanefnd Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu fundaði í dag með almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og vísindamönnum um eldgosið á Fimmvörðuhálsi.

Mælingar gefa til kynna að þrýstingur í eldsstöðinni hafi ekki minnkað og er því enn talin hætta á að gosið geti farið undir jökul, að fram kemur í tilkynningu. Vegna þess verður áfram lokað inn í Þórsmörk en gos undir jökli getur kallað fram flóð sem fari þar niður. Af sömu ástæðu er umferð um Eyjafjallajökul bönnuð.

Umferð ökutækja upp Fimmvörðuháls er bönnuð vegna aurbleytu en sú leið verður opin fyrir göngufólk. Í tilkynningunni segir að þeir sem fari að gosstöðinni geri það á eigin ábyrgð. Vakin er athygli á því að veður geti breyst hratt á þessu svæði. Þá er göngufólk hvatt til þess að vera vel útbúið. Ágætt sé að fólk að taka mið af leiðbeiningum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg er með á heimasíðu sinni og fjallað var um á Vísi fyrr í dag.

Þeir sem fara gangandi upp Fimmvörðuháls geta skráð sig við Skóga áður en þeir leggja af stað.

Þá segir í tilkynningunni að unnið sé að lagfæringum á veginum um Fljótshlíð að Fljótsdal til að auðvelda ferðafólki að komast á staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×