Innlent

Formaður Framsóknarflokksins: Sveigðum of langt til hægri

Sigmundur sagði að allir flokkar verði að líta í eigin barm þegar kemur að bankahruninu.
Sigmundur sagði að allir flokkar verði að líta í eigin barm þegar kemur að bankahruninu. Mynd/Stefán Karlsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, segir að allir flokkar verði að líta í eigin barm þegar kemur að bankahruninu og að enginn flokkur hafi farið í eins afgerandi endurnýjun og Framsóknarflokkurinn hafi ráðist í. Þetta sagði Sigmundur í umræðum um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á þingfundi í dag.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að sú endurnýjun snérist ekki bara um að skipta út mönnum. Hún snérist um að skoða stefnuna og viðurkenna það að menn hefðu farið út af sporinu. Viðurkenna það að menn hefðu sveigt of langt til hægri og viðurkenna það að menn þyrftu aftur að ná inn á hinn gullna meðalveg. Einungis þannig komust við áfram."

Áður en Sigmundur steig í ræðustól höfðu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisáðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins flutt sínar ræður. Sigmundur sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með ræður og söguskýringar forystumanna stjórnarflokkanna.

„Við þurfum að nota tækifærið til þessa að fara að horfa til framtíðar en vissulega er það rétt að ef menn ætla að horfa til framtíðar þá verður að læra af reynslunni. Það hafa mikil mistök verið gerð á Íslandi en það vissum við reyndar fyrir. Við vissum kannski ekki alveg hversu umfangsmikil mistökin hefðu verið. Við eigum ekki að láta eins og þetta komi okkur allt á óvart," sagði Sigmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×