Íslenski boltinn

Fékk rautt og getur því spilað bikarúrslitaleik - myndband

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðmundur Sævarsson.
Guðmundur Sævarsson.

Rauða spjaldið sem Guðmundur Sævarsson, bakvörður FH, fékk í sigurleiknum gegn ÍBV í gær gerir það að verkum að hann er löglegur í bikarúrslitaleikinn gegn KR þann 14. ágúst.

Guðmundur fékk að líta gula spjaldið í fyrri hálfleik en það var hans fjórða áminning á tímabilinu. Hann fékk svo annað gult spjald í uppbótartíma og þar með rautt. Hefði hann ekki fengið það spjald hefði hann misst af bikarúrslitaleiknum vegna leikbanns.

Aganefnd úrskurðar á þriðjudaginn og hefði Guðmundur aðeins fengið gult spjald í leiknum í gær hefði hann verið dæmdur í leikbann sem hefði tekið gildi næsta föstudag. Þar með hefði hann verið útilokaður frá bikarúrslitaleiknum.

En þar sem hann fékk rautt þá strokast gula spjaldið út og hann tekur sjálfkrafa út leikbann í næsta leik FH sem er gegn Breiðabliki á sunnudaginn. Hann verður því löglegur gegn KR en með þrjú gul á bakinu.

Brot Guðmundar í uppbótartímanum úti á miðjum velli þegar FH var að vinna 3-1 virtist því ekki þjóna neinum öðrum tilgangi en að hagræða leikbanni hans.

Með því að smella hér geturðu séð svipmyndir úr leiknum en í lok myndbandsins sést brot Guðmundar. Þegar hann gengur af velli má svo sjá glott á andliti hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×