Lífið

Baulan búin: Kristín Hrönn og Svava María sigurvegarar kvöldsins

Sigrún Tómasdóttir skrifar
Svava María Ómarsdóttir og Kristín Hrönn Jónsdóttir, sigurvegarar.
Svava María Ómarsdóttir og Kristín Hrönn Jónsdóttir, sigurvegarar.
Hin margfræga söngvakeppni Skólafélags Menntaskólans við Sund, Baulan, var haldin hátíðleg föstudaginn 29. janúar. Skipuð var sjö manna nefnd í haust, Mjaltakonur, og sáu þær um skipulagningu á atburðinum. Í byrjun virtust fáir ætla að taka þátt en þegar á hólminn var komið komust færri að en vildu.

Keppnin var að þessu sinni haldin í Vetrargarðinum í Smáralind. Þegar komið var á staðinn á miðvikudeginum fyrir keppni sáust aðeins mislitir sviðspallar á stangli um gólfið og ein einmanaleg stúka en með samvinnu og dugnaði tækjamanna og aðstandenda tókst smám saman að koma þessu í gott stand.

Keppendur voru fjórtán talsins og er deginum ljósara að það er mikið af hæfileikafólki í MS. Salurinn fylltist á met tíma og var stemningin frábær. Kór skólans byrjaði kvöldið með atriði og svo tóku keppendur við, koll af kolli.

Það voru svo þær Kristín Hrönn Jónsdóttir og Svava María Ómarsdóttir sem stóðu uppi sem sigurvegarar kvöldsins með frumsamda lagið Your lips not on mine eftir Kristínu. Þær stöllur munu svo keppa fyrir hönd MS á Akureyri í apríl og munu MS-ingar flykkjast norður til að styðja við bakið á þeim. Í öðru sæti lenti svo Unnsteinn Árnason með lagið Til eru fræ og í því þriðja Agnar Birgir Gunnarsson með lagið Iris.

Keppnin tókst í alla staði vel og áhorfendur skemmtu sér konunglega.



Þessi frétt er skrifuð af fulltrúa MS fyrir Skólalífið á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×