Innlent

Þingmaður: Skelfileg skilaboð þegar brotið er gegn anda laganna

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, óttast að fleiri kunni að nýta sér glufuna sem kanadíska orkufélagið Magma Energy fann til að kaupa HS-Orku. Hún segir það senda skelfileg skilaboð að hægt sé að brjóta gegn anda laganna. Á fundi iðnaðarnefndar í dag kom fram að hugmyndin að stofnun fyrirtækis í Svíþjóð til að annast kaupin kom frá Magma Energy.

Þingmaðurinn segir að iðnaðarráðuneytið, viðskiptaráðuneytið og nefnd um erlendar fjárfestingar hafi verið sammála um að lög um erlenda fjárfestingu séu úrelt.

Tilgangur laganna er að hamla því að fyrirtæki utan EES-svæðisins geti eignast íslensk fyrirtæki í sjávarútveg, orkuiðnaði og flugrekstri. En svo er hægt að fara framhjá þeim með því að stofna skúffufyrirtæki, líkt og Magma Energy gerði.

Iðnaðarnefnd Alþingis fundaði um Magma-málið í dag að beiðni Margrétar.

Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar, sagði við fréttastofu Stöðvar 2 að loknum fundi nefndarinnar að ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin í tengslum við kaup Magma Energy á HS Orku. Hins vegar sé ljóst að löggjöf um erlenda fjárfestingu sé meingölluð og hana þurfi að endurskoða sem fyrst.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sagði um helgina að hún vildi láta rannsaka starfsemi Magma Energy Sweden fyrirtækisins í ljósi upplýsinga sem hún segir varpa nýju ljósi á málið. Upplýsingarnar sýna svo ekki verður um villst að Magma í Svíþjóð er svokallað skúffufyrirtæki. Þá var iðnaðarráðuneytið sakað um það að hafa aðstoðað Magma í Kanada við að fara framhjá íslenskum lögum.

Nefnd um erlenda fjárfestingu klofnaði í afstöðu til kaupa Magma Energy á HS Orku í gegnum dótturfélag í Svíþjóð. Meirihlutinn taldi kaupin ekki brjóta í bága við lög. Minnihlutinn var þó á því.

En aðstoðaði iðnaðarráðuneytið Magma Energy við að fara framhjá íslenskum lögum?

Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Magma á Íslandi, var á fundi iðnaðarnefndar í dag og sagðist hafa farið á fund iðnaðarráðuneytissins og fengið ráðgjöf um hvaða lög giltu, að sögn Margrétar. Össur Skarphéðinsson var þá iðnaðarráðherra en hann sat ekki fundinn. Ásgeir sagði að hugmyndin um að stofna félag í Svíþjóð til að kaupa HS-Orku hafi komið frá þeim í Magma.

„Það virtist samt hafa verið á borðinu að það væri hægt að komast í kringum lögin. Það er kannski mín túlkun," segir Margét.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×