Innlent

Átta ára fangelsi fyrir dópsmygl

Amfetamínvökvinn. Úr honum hefði verið hægt að framleiða 153 kíló af amfetamíni.
Amfetamínvökvinn. Úr honum hefði verið hægt að framleiða 153 kíló af amfetamíni.

Kona um fertugt var í gær dæmd í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að reyna að smygla til landsins tæplega tuttugu lítrum af vökva sem innihélt amfetamínbasa. Önnur kona sem var ákærð fyrir sömu sakir, var sýknuð.

Elena Neuman, sú sem dæmd var, tók við vökvanum í Litháen og flutti þaðan falinn í eldsneytistanki VW Passat bifreiðar til Þýskalands. Þaðan flutti hún vökvann með sama hætti til Danmerkur. Síðan lá leiðin með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem vökvinn fannst við leit í ágúst. Úr þessu vökvamagni hefði verið unnt að framleiða allt að 20,9 kíló af hreinu amfetamínsúlfati, sem samsvarar 153 kílóum af efni miðað við tíu prósenta styrkleika.

Konan bar að litháískur karlmaður hefði gefið sér bílinn, sem vökvinn var falinn í. Sá maður, Romas Kosakovskis, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi árið 2006 fyrir að hafa smyglað hingað tveimur lítrum af amfetamínvökva og brennisteinssýru. Konan segir manninn einnig hafa greitt fyrir Íslandsferð hennar. - jss





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×