Innlent

Geir Haarde: Ég er ekki hræddur

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.
„Niðurstaða meirihluta þingmannanefndar, sem fjallað hefur um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum, veldur mér miklum vonbrigðum. Ég tel að meirihlutinn hafi komist að rangri niðurstöðu," segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum skömmu fyrir klukkan 12.

„Komi til þess að Alþingi samþykkti tillögu um að stefna mér fyrir landsdóm verður það þungbær reynsla en sá sem hefur hreinan skjöld er ekki hræddur við að fá úrlausn sinna mála fyrir óháðum og óvilhöllum dómstóli eins og landsdómi er ætlað að vera," segir Geir.

Meirihluta þingmennanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis leggur til að fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði dregnir fyrir landsdóm, þar á meðal Geir.

Geir segir að þeir þingmenn sem samþykkja ákæruna verði að vera reiðubúnir að horfast í augu við sína ábyrgð á því þegar öll kurl verða komin til grafar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×