Innlent

Samfylkingin rannsaki þátt flokksins í bankahruninu

Mörður er varaþingmaður Samfylkingarinnar en hann átti fast sæti á Alþingi á árunum 2003 til 2007.
Mörður er varaþingmaður Samfylkingarinnar en hann átti fast sæti á Alþingi á árunum 2003 til 2007. Mynd/Völundur Jónsson
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, segir að kannski sé kominn tími til að Samfylkingin rannsaki þátt flokksins í bankahruninu í stað þess að bíða skjálfandi eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Mörður segir í pistli á Eyjunni að Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hafi opinberlega sett fram þá söguskýringu að Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon hafi glutrað niður nánast unninni stöðu í Icesave vegna einskærrar andúðar á Evrópusambandinu.

„Forystumenn Samfylkingarinnar hafa ekki haft geð í sér til að fjalla um þá kenningu eða skýra meinta stefnubreytingu flokksins í málinu frá hausti 2008 til vors 2009. En auðvitað er athyglisvert fyrir félaga í þeim flokki að heyra Svavar Gestsson svara ásökunum aðstoðarmannsins fyrrverandi," segir Mörður og vísar til viðtals við Svavar á Rás 2 í gær.

Í framhaldinu veltir hann upp þeirri spurningu hvort Samfylkingin eigi ekki að rannsaka hlut flokksins í hruninu. „Kannski er kominn tími til að við í Samfylkingunni söfnum kjarki og byrjum að rannsaka upp á eigin spýtur þátt flokksins í hrunmálunum í staðinn fyrir að bíða skjálfandi eftir skýrslunni frá rannsóknarnefnd Alþingis?"

Hægt er að lesa skrif Marðar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×