Innlent

Glitnir kyrrsetur lúxusbíla Jóns Ásgeirs

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson

Glitnir fékk fyrir sex vikum kyrrsetningu á eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hér á landi. Krafa Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri er sex milljarðar króna en umræddar eignir eru metnar á samtals 197 milljónir króna.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti kröfu Glitnis um kyrrsetninguna 20. maí síðastliðinn. Enginn mætti fyrir hönd Jóns Ásgeirs þegar kyrrsetningarkrafan var tekin fyrir hjá embættinu. Fulltrúar þess leituðu þá til lögmanns sem starfaði fyrir Jón í svokölluðu Baugsmáli. „Haft var samband við Gest Jónsson hrl. sem kvaðst ekki vera umboðsmaður gerðarþola í kyrrsetningarmáli þessu," segir í gerðarbók.

Meðal kyrrsettu eignanna eru fasteignir á Laufásvegi, Vatnsstíg og Hverfisgötu, jörðin Á í Skagafirði og sumarhús Jóns Ásgeirs og eiginkonu hans við Þingvallavatn. Þá eru kyrrsettir nokkrir bílar, meðal annars tveir Range Rover jeppar, Hummer jeppi og Bentley fólksbíll. Einnig var gerð kyrrsetning í tveimur bankareikningum með samtals um 3,7 milljóna innistæðum og í eignarhluta Jóns Ásgeirs í eignarhaldsfélaginu Þú Blásól ehf.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hafa dómstólar hins vegar fellt úr gildi fyrri ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetja eignir Jóns Ásgeirs á grundvelli kröfu tollstjórans fyrir hönd skattrannsóknarstjóra. - gar







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×