Lífið

Kántrí-upprisa Kid Rock

Vandræðagemlingurinn Kid Rock sendi á dögunum frá sér plötuna Born Free. Ólíkt fyrstu skrefum Rocks í tónlistarbransanum er Born Free kántríplata af gamla skólanum og stefnubreytingin malar fyrir hann gull.

Upp úr aldamótum þegar rapprokkið (e.: nu metal) var að renna sitt skeið á enda sendi Kid Rock frá sér plötuna Cocky. Á henni má finna kántrílagið Picture, sem Sheryl Crow söng ásamt Rock. Lagið kom ekki út áreynslulaust. Útgáfufyrirtæki Kids Rock kærði sig ekki um að hann breytti ímynd sinni úr harðgerðum rapprokkara í dúnmjúkan kántrísöngvara á einni nóttu og til að bæta gráu ofan á svart náðust ekki samningar við útgáfufyrirtæki Crow um útgáfu lagsins á smáskífu. Henni var því skipt út fyrir söngkonuna Allison Moorer. Lagið gat þá komið út, sló rækilega í gegn og Kid Rock hafði farið í kántríið (e.þ. gone country).

Gone country er bandarískt slangur sem lýsir tónlistarmanni sem skiptir yfir í kántrítónlist. Gott dæmi um hljómsveit sem hefur farið í kántríið með góðum árangri er Bon Jovi en árið 2007 sendi hljómsveitin frá sér plötuna Lost Highway. Hún var fyrsta plata hljómsveitarinnar sem fór beint á topp bandaríska Billboard-listans. Slangrið lýsir reyndar líka sifjaspelli, en það er enginn að saka Kid Rock um slíkt.

Dæmi um misheppnaða tilraun til að fara í kántríið er platan Do You Know með Jessicu Simpson frá árinu 2008. Platan gerði nánast út af við tónlistarferil Simpson, sem hefur átt afar erfitt uppdráttar undanfarið.

Til að undirstrika þessa nýju ímynd má nefna að Kid Rock eyddi hluta þessa árs í að hita upp fyrir Bon Jovi. Á sama tíma fyrir áratug hitaði hann upp fyrir hljómsveitir á borð við Korn og System of a Down.

Það getur enginn sakað Kid Rock um leti. Hann er búinn að vera að lengi; gaf út fyrstu plötuna 1990 og sló í gegn í átta árum síðar með plötunni Devil Without a Cause eftir mikið streð. Rock lýsir nýju plötunni sem lífrænni blöndu af blús og rokki. Rick Rubin stýrði upptökum á plötunni, en hann hefur unnið með meisturum á borð við Johnny Cash, Slayer og System of a Down. Platan er sú fyrsta sem Kid Rock sendir frá sér sem er ekki með viðvörunarmerki sem varar við óhefluðu orðbragði. Þykir það til marks um nýja ímynd tónlistarmannsins.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.