Innlent

Slæmar aðstæður til leitar

Lagt í leiðangur Hér sést snjóbíll Hjálparsveitar skáta í Kópavogi undirbúinn fyrir leitina í gær. Um tvö hundruð manns tóku þátt í leitinni. fréttablaðið/vilhelm
Lagt í leiðangur Hér sést snjóbíll Hjálparsveitar skáta í Kópavogi undirbúinn fyrir leitina í gær. Um tvö hundruð manns tóku þátt í leitinni. fréttablaðið/vilhelm

Kona og unglingur týndust á Langjökli eftir að þau urðu viðskila við ferðafélaga sína í vélsleðaferð um miðjan daginn í gær. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, var send á staðinn og um 150 björgunarsveitarmenn, úr sleða- og snjóbílaflokkum, voru kallaðir út um klukkan 17.30.

Síðar stækkaði hópurinn upp í allt að 270 manns, sem komu víða að, allt frá Kirkjubæjarklaustri og Akureyri. Leit stóð enn yfir þegar blaðið fór í prentun á ellefta tímanum í gær. Þá var þyrlan í biðstöðu í Reykjavík, enda skyggni ekki nógu mikið til að hún kæmi að gagni. Vindur var mikill og éljagangur. Veður var vont og fór versnandi og aðstæður til leitar slæmar á leitarsvæðinu við Skálpanes, á Langjökli suðaustanverðum.

Fyrir tveimur vikum féll 45 ára gömul kona ofan í sprungu á Langjökli ásamt sjö ára syni sínum. Mæðginin höfðu verið í jeppaferð en féllu niður í sprunguna á göngu. Konan lét lífið en drengurinn komst lífs af. Eftir björgunaraðgerðir þá var greint frá því að aðstæður væru óvenjulegar á jöklinum miðað við árstíma og fólk hvatt til að fara mjög varlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×