Enski boltinn

Nasri er enn hundfúll út í Gallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samir Nasri ætlar ekki að taka í hönd William Gallas næst þegar að Arsenal og Tottenham eigast við, rétt eins og hann gerði síðast þegar þessi lið mættust.

Liðin munu næst eigast við í febrúar næstkomandi en eins og frægt er eru þeir Nasri og Gallas ekki beinlínis perluvinir.

Ósættið byrjaði í ferð með franska landsliðinu þegar að Nasri settist í sæti í rútunni sem Thierry Henry var vanur að sitja í. Gallas líkaði það ekki og hefur til að mynda látið Nasri heyra það í ævisögu sinni.

Nasri og Gallas voru samherjar hjá Arsenal á síðasta tímabili en Gallas fór til Tottenham í sumar. Þeir töluðust aldrei við þegar þá.

„Ég sagði aldrei „halló" við Gallas allt árið sem við vorum saman í Arsenal," sagði Nasri við enska fjölmiðla. „Af hverju ætti ég þá að heilsa honum fyrir framan sjónvarpsmyndavélar nú þegar hann er farinn til Tottenham."

„Ég er ekki þannig. Þegar mér líkar ekki við einhvern segi ég viðkomandi það og heilsa honum ekki. Allur heimurinn veit að okkur semur ekki og fjallaði hann meira að segja um það í bókinni sinni."

„Hann sagði svo eftir leikinn um daginn að það hafi verið minn missir að ég hafi ekki tekið í höndina hans. Minn missir? Um hvað er maðurinn að tala? Hann er greinilega búinn að gleyma hvernig hann lét."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×