Innlent

Fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans líklega lausir allra mála

Þrír fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans og fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins eru væntanlega lausir allra mála vegna starfa sinna í aðdraganda bankahrunsins, eftir að settur ríkissaksóknari komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til sakamálarannsóknar á hendur þeim. Þingmaður Hreyfingarinnar telur niðurstöðuna vera fyrsta skrefið af mörgum í hvítþvotti yfirstéttarinnar á sjálfri sér.

Þingmannanefnd sem fer yfir niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis kom málefnum fyrrverandi seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins á framfæri við saksóknara um miðjan maí. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins.

Í tilkynningu frá settum ríkissaksóknara segir að athugun á þeim atriðum sem skilgreind eru í skýrslunni sem vanræksla sé lokið. Ekki sé tilefni til að efna til sakamálarannsóknar á hendur Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni, Ingimundi Friðrikssyni og Jónasi Fr. Jónssyni.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir lyktir málsins hörmulegar. „Að fjórir leiðandi menn bankahrunsins skuli sleppa með allt sitt á hreinu. Þetta geta ekki talist eðlileg vinnubrögð í eðlilegu samfélagi að svona geti gerst og því miður held ég einfaldlega að þetta sé bara fyrsta skrefið af mörgum í hvítþvotti yfirstéttarinnar á sjálfri sér og ég held að þetta verði niðurstaðan þegar upp er staðið að það mun enginn svara til saka, það bendir ekkert til þess hingað til og það sem framundan er í þessu máli lítur ekkert betur út," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×