Innlent

Grafarþögn um niðurstöðuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þingnefnd sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis lauk fundi um áttaleytið í kvöld og hafði þá verið að störfum mestan hluta dagsins. Nefndin hefur enn ekki lokið störfum og hefur verið boðað til fundar aftur á morgun.

Þeir nefndarmenn sem Vísir talaði við vildu ekkert segja til um hvort það væri samkomulag eða ágreiningur um það hvort höfða ætti mál fyrir landsdómi gegn einhverjum ráðherrum úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem sat við völd í aðdraganda bankahrunsins.

Eins og fram hefur komið mun nefndin birta skýrslu og gera grein fyrir störfum sínum á þingfundi klukkan fimm á morgun en fyrr um daginn munu þingflokkar hittast til að fara yfir niðurstöðuna. Gert er ráð fyrir að haustþingi ljúki á næsta miðvikudag. Skýrslan verður aðalviðfangsefnið þangað til.

Þeir þingmenn sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi að hefðu gerst sekir um vanrækslu eru Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Þá hefur verið greint frá því að til athugunar hafi komið að Alþingi myndi jafnframt höfða mál gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×