Innlent

Ingibjörg Sólrún: Hafði ekki forsendur til að draga orð sérfræðinga í efa

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, er ekki talin hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi samkvæmt Rannsóknarskýrslunni.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, er ekki talin hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi samkvæmt Rannsóknarskýrslunni. MYND/Anton

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segist ekki hafa haft neinar forsendur til þess að draga greiningar sérfróðra manna og eftirlitsaðila um varnir efnahagskerfisins í efa. Þá hafi hún sem utanríkisráðherrra ekki farið með efnahagsmál heldur forsætisráðherra. Þetta kemur fram í andmælabréfi hennar til Rannsóknarnefndar Alþingis sem birt er með skýrslu nefndarinnar.

Ingibjörg Sólrún var ein 12 manna sem fengu bréf frá Rannsóknarnefndinni vegna rannsóknar á hugsanlegri vanrækslu í starfi. Í bréfi Rannsóknarnefndarinnar er meðal annars minnst á að Ingibjörg hafi setið nokkra fundi á fyrri hluta árs 2008 þar sem seðlabankastjóri hafi varað við stöðu fjármálakerfisins en Ingibjörg hafi sem forystumaður í ríkisstjórn ekki gripið til aðgerða. Þá hafi hún ekki gengið úr skugga um hver geta ríkissjóðs væri til að styðja fjárhagslega við bak fjármálafyrirtækja áður en hún hafi lýst því yfir sem utanríkisráðherra að staðið yrði við bakið á bönkunum.

Ingibjörg Sólrún bendir á í svarbréfi sínu að hún hafi ekki verið staðgengill forsætisráðherra heldur hafi varaformaður Sjálfstæðisflokksins sinnt því hlutverki. Engin lagaleg skylda hafi hvílt á henni til þess til þess að grípa inni í málin enda ekki á verk- eða valdsviði hennar. Því sjái hún ekki hvernig nefndin geti komist að þeirri niðurstöðu að hún

hafi sýnt af sér refsiverða háttsemi.

Ingibjörg Sólrún segir enn fremur að á fundum með seðlabankastjóra í febrúar og apríl, þar sem bankastjórinn lýsti áhyggjum af stöðu fjármálakerfisins, hafi ekki verið lögð fram nein gögn eða veittar upplýsingar sem kölluðu á sérstök viðbrögð af hennar hálfu. Gögnum virðist í raun hafa verið haldið frá henni að mati Ingibjargar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×