Enski boltinn

Konungsfjölskyldan í Katar ætlar að kaupa Manchester United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hamad sjeik, forsætisráðherra Katar, með Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, árið 2008.
Hamad sjeik, forsætisráðherra Katar, með Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, árið 2008. Nordic Photos / Getty Images
Eignarhaldsfélagið Qatar Holdings ætlar sér að kaupa Manchester United fyrir einn og hálfan milljarð punda samkvæmt frétt Sunday Mirror í dag.

Mirror hefur farið mikinn í haust og greindi fyrstur miðla frá málefnum bæði Carlos Tevez um síðustu helgi og Wayne Rooney fyrr í haust.

Nú er því haldið fram að konungsfjölskyldan í Katar ætli sér að eignast Manchester United.

Eins og kunnugt er verður heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu haldin í Katar árið 2022.

Manchester City er nú í eigu Abu Dhabi United Group þar sem Mansour sjeik fer fremstur í flokki. Abu Dhabi er stærsta borgin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem á landamæri að Katar.

Konungsfjölskyldan hefur fest kaup á mörgum frægum fasteignum í Bretlandi sem og Harrods-verslunarkeðjunni. Þá var greint frá því í síðustu viku að Qatar Foundation, góðgerðarsamtök konungsfjölskyldunnar, hefðu gert risastyrktarsamning við Barcelona á Spáni.

Qatar Holdings á einnig stóran hlut í Volkswagen-bílaframleiðandanum sem og Porsche. Stjórnarformaður Qatar Holdings, Hamad sjeik, er einnig forsætisráðherra landsins.

Glazer-fjölskyldan keypti Manchester United fyrir 790 milljónir punda árið 2005 og ljóst að hún getur grætt mikið á því að selja félagið til Katar. Glazer-feðgarnir eru ekki þeir vinsælustu í Manchester eftir að hafa tekið út lán gegn veði í eignum félagsins. Því er talið að stuðningsmenn muni fagna aðkomu konungsfjölskyldunnar í Katar.

Konungsfjölskyldan mun hafa lagt til hliðar 2,5 milljarða punda til að kaupa félagið og gera Alex Ferguson, stjóra United, kleift að hafa ótakmörkuð fjárráð til að kaupa nýja leikmenn til United.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Qatar Holdings er sagt hafa áhuga á að kaupa knattspyrnufélag í Evrópu en það hefur verið orðað við Barcelona, Real Madrid, Chelsea, Liverpool, Tottenham og Newcastle. Manchester United mun þó alltaf hafa verið efst á óskalistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×