Innlent

Skýrslan er úttekt en ekki dómur

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, er einn þriggja stjórnmálamanna sem rannsóknarnefndin telur hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi.

Björgvin varð ráðherra 2007 en sagði af sér embætti í janúar 2009, rétt áður en ríkisstjórnin vék öll. Hann varð formaður þingflokks Samfylkingarinnar í apríl 2009 en sagði sig frá því starfi í gær.

„Ég tel eðlilegt að stíga til hliðar sem þingflokksformaður á meðan nefndin [þingmannanefnd um rannsóknarskýsluna] skoðar það sem fram kemur í skýrslunni," sagði Björgvin í gær. Hann sér ekki ástæðu til að afsala sér þingmennsku enda sé skýrslan úttekt en ekki dómur.

„Ég kalla eftir að landsdómur komi saman og vil fá tækifæri til að verja nafn mitt þar."

Í stjórnarskrá segir að óflekkað mannorð sé forsenda kjörgengis til Alþingis. Björgvin segir það ákvæði ekki eiga við um sig, þar sé um að ræða dóma fyrir glæpaverk.

„Það er eitt að sýna af sér vanrækslu og annað að fremja saknæmt athæfi." Hann óttast ekki að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar í málum hans geti haft áhrif á störf hans á Alþingi.

Björgvin segir margt hægt að læra af skýrslunni, í henni séu felldir áfellisdómar yfir stjórnmála- og viðskiptalífinu. Meðal þess sem komi fram sé að samskipti innan ríkisstjórnarinnar hafi verið óeðlileg, óásættanleg og ámælisverð.

„Skýrslan dregur vel fram hvernig samskiptum skal ekki háttað í þjóðfélaginu."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×