Innlent

Jónas Fr.: Ég skilaði betri stofnun en ég tók við

Jónas Fr. Jónsson segist hafa skilað betri stofnun.
Jónas Fr. Jónsson segist hafa skilað betri stofnun.

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) segist hafa skilað betri stofnun en hann tók við. Hann segir FME hafa verið alvarlega fjársvelt en stórbatnað í sinni stjórnartíð. Þetta kom fram í viðtali við Jónas á RÚV í kvöld.

Sjálfur hefur hann verið sakaður um vanrækslu af rannsóknarnefnd Alþingis.

Jónas tók sem dæmi að nú eru 18 mánuðir liðnir frá hruni. Búið er að stórbæta aðstöðu og aðbúnað rannsóknaraðila svo sem FME auk þess sem búið er að koma á fót embætti sérstaks saksóknara.

Þrátt fyrir það hefur engin ákæra litið dagsins ljós og hann spurði því á móti hvað stofnun sem innihélt rétt rúma þrjátíu starfsmenn hafi getað gert gagnvart þeim tæplega 40 stórfyrirtækjum sem þeir áttu að hafa eftirlit með.

Hann sagði málin hafa verið flókin og umfangsmikil; slíkt væri eðli efnahagsbrota.

Þá var Jónas spurður um Landsbankann og lán til Björgólfs Thors Björgólfssonar og Actavis. Bankinn neitaði að tengja þessa aðila saman en áhættufjárbindingin var samanlagt um 50 prósent af eigin fé bankans. Það er ólöglegt en hámarkið eru 25 prósent.

Rannsóknin tók að auki tvö og hálft ár en málið var aldrei kært til lögreglunnar.

Jónas benti þá á að Landsbankinn hefði ráðið til sín alla sem komu að rannsókninni nema einn aðila. Hann þurfti svo að ljúka rannsókninni með nýjum einstaklingum.

„Hvað átti að gera? Það hefði aldrei flogið að koma einhverjum í fangelsi fyrir þetta," sagði Jónas svo.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×