Innlent

Stjórnmálafræðingur: Besti flokkurinn tekur sig alvarlega

Flestir Reykvíkingar vilja að Jón Gnarr verði næsti borgarstjóri, samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Stjórnmálafræðingur segir nýja aðgerðaráætlun Besta flokksins vísbendingu um að flokkurinn taki sig alvarlega.

Flestir þeirra sem tóku afstöðu í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, vilja að Jón Gnarr, oddviti Besta Flokksins, verði næsti borgarstjóri. Næst á eftir kemur Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og í þriðja sæti er Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar. Jón Gnarr segir að leiklistin verði í öðru sæti, ef hann tekur við sem borgarstjóri.

„Ég set hana á ís og hver veit nema ég geti stundað hana eitthvað samhliða. Ég er mjög góður í að multitaska," segir Jón.

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, segir að kjósendur séu greinilega í miklum vafa um stjórnmálin almennt. Fylgi Besta flokksins sé án fordæmis. „Og náttúrulega algjörlega fordæmislaust þegar kemur að grín- eða ádeiluframboði."

En telur Stefanía að fylgið haldi næstu helgi? „Ég held að þessar skoðanakannanir séu vísbendingar sem taka verði mark á. Ég held að Besti flokkurinn hljóti að koma þónokkuð mörgum inn nema það komi upp í vikunni álitamál sem varpi rýrð á framboðið," segir Stefanía. Flokkurinn verði þó að gera kjósendum grein fyrir því hvort um sé að ræða áframhaldandi brandara eða alvöru.

Í aðgerðaráætlun Besta flokksins segir að flokkurinn vilji draga skýr mörk á milli stjórnsýslu og stjórnmála, stöðva pólitískar ráðningar, sýna ábyrgð og ráðdeild í fjármálastjórnun, loka miðbænum fyrir almenna bílaumferð, tryggja jafnan aðgang allra að dagvistun og persónulega grunnþjónustu fyrir aldraða. Þá vill flokkurinn finna úrræði fyrir útigangsfólk, bjóða atvinnulausum að taka þátt í uppbyggingarstarfi í borginni og skoða þann möguleika að nota Arnarholt á Kjalarnesi undir alþjóðlegt hvítflibbafangelsi, svo eitthvað sé nefnt.

„Nú hefur verið lögð fram aðgerðaráætlun í einhverjum liðum. Það er vísbending fyrir kjósendur um það að flokkurinn taki sig á einhvern hátt alvarlega," segir Stefanía.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×