Innlent

Boðar lagafrumvarp vegna Magma Energy

Umhverfisráðherra segir augljóst að farið hafi verið á svig við lög þegar Magma Energy eignaðist HS orku og vill að fram fari opinber rannsókn á kaupferlinu. Ráðherra boðar lagafrumvarp sem girðir fyrir að aðilar utan evrópska efnahagssvæðisins geti eignast auðlindir landsins.

Teitur Atlason bloggari á DV sem býr í Svíþjóð og Lára Hanna Einarsdóttir bloggari á Eyjunni hafa upplýst að Magma Energy Sweden sem sagt er vera dótturfélag Magma í Kanada, hefur enga starfsmenn í Svíþjóð og stundar þar ekki neina starfsemi. Það sé augljóslega skúffufyrirtæki stofnað til að koma kanadíska fyrirtækinu framhjá lögum um erlenda fjárfestingu í orkufyrirtækjum á Íslandi.

„Það eru upplýsingar sem ekki lágu fyrir, ég tel einboðið að nefndin þurfi að fá málið aftur til umfjöllunar."

Svandís segir það alltaf hafa verið augljóst í sínum huga að Magma í Svíþjóð væri skúffufyrirtæki. Nú væri það staðfest enn frekar. Hún vill að það verði rannsakað hvernig salan á HS orku varð að veruleika og hefur rætt það við efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Það er augljóst í mínum huga að hér er verið að fara á svig við löggjöfina. Þarna er vísvitandi sjónarspil á ferðinni og það má velta fyrir sér hvar slíkar ákvarðanir eru teknar og hverjir standa að þeim."

Mikil og almenn andstaða er við það innan Vinstri grænna að útlendingar fjárfesti í orkuauðlindum landsins og því ráðherrum flokksins erfitt að þessi sala fór í gegn.

„Þetta er óþægilegt mál fyrir Ísland og Íslendinga. Þarna koma erlendir aðilar og seilast í auðlindarnar. Þá er afar dýrmætt að við höldum vöku okkar til að við missum ekki auðlindarnar úr höndunum."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×