Innlent

Gosmistur yfir höfuðborgarsvæðinu

Karen Kjartansdóttir skrifar
Mistur liggur yfir höfuðborgarsvæðinu nú og segir sérfræðingur frá Veðurstofunni að það sé af völdum gossins í Eyjafjallajökli. Dökkan mökk leggur nú frá eldstöðvunum og einhver öskumyndun er enn til staðar. Hins vegar eru líkur á að mikið af þeirri ösku sem nú liggur yfir höfuðborginni sé að hluta til komið vegna fjúks af ösku sem hafði þegar fallið á Suðurlandi en berst nú um með vindum. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu er spáð allhvassri suðaustan- og austanátt með suðurströndinni en annars hægari og verður úrkomulítið.

Í tilkynningu frá sóttvarnalækni í gær segir að þegar öskumistur sé til staðar eða aukin svifryksmengun mælist þá sé einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt að halda sig innandyra en notkun gríma er óþörf. Fólki er bent á að fylgjast með fréttum og upplýsingum og leiðbeiningum á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is og á heimasíðu Umhverfisstofnunar, www.ust.is .

Virkni í gosinu er svipuð og verið hefur og ekkert lát virðist vera á umbrotunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×