Innlent

Áframhaldandi rannsókn á kristniboða ólíkleg

Alls hafa komið upp sex mál síðan nefnd um málefni kynferðisbrota innan kirkjunnar var stofnuð fyrir ellefu árum.
Alls hafa komið upp sex mál síðan nefnd um málefni kynferðisbrota innan kirkjunnar var stofnuð fyrir ellefu árum.
Samtökum íslenskra kristniboða (SÍK) bárust ásakanir frá þremur einstaklingum um kynferðislega áreitni á hendur presti sem starfað hefur hjá þeim. Ásakanirnar bárust hinn 23. ágúst síðastliðinn og var fagráði Þjóðkirkjunnar um kynferðismál tilkynnt um atvikin strax daginn eftir. Biskupsstofa staðfestir það.

Presturinn játaði brot sín, sem áttu sér stað fyrir 25 árum, í síðustu viku og flúði í kjölfarið til Noregs. Hann starfaði lengi í kristniboði í Eþíópíu og hefur erlendum samstarfsaðilum SÍK verið tilkynnt um málið.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri SÍK, telur óvíst að áframhaldandi rannsókn muni fara fram á erlendri grund en segir samstarfshreyfingu SÍK í Noregi vinna að endurbótum varðandi almennar verklagsreglur og að fylgst sé náið með því hér á landi. Aðspurður hvort standi til að draga manninn til refsingar innan samtakanna, þrátt fyrir að málin séu fyrnd að lögum, segir Ragnar að allt sem hægt sé að gera í málinu hafi verið gert.

„Hann er dreginn út úr öllu starfi hjá okkur og samstarfsaðilum okkar. Og hann mun ekki starfa frekar hjá okkur. Hvað getum við gert meira?“ Ragnar segist ekki vita til þess að önnur mál sem þessi hafi komið upp innan samtakanna.

Biskupsstofa staðfestir ásakanirnar og játningar prestsins. Hann muni sökum þessa ekki gegna störfum sem prestur né koma á nokkurn hátt fram á vegum þjóðkirkjunnar. - sv


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×