Innlent

Standa sig verr í Háskóla Íslands

Nemendur úr Hraðbraut standa sig verr í Háskóla íslands en nemendur úr öðrum menntaskólum. Þetta kemur fram í skýrslu menntamálanefndar um málefni Hraðbrautar, en hún er áfellisdómur yfir stjórnendum skólans.

Menntamálanefnd hefur verið með málefni Hraðbrautar til umfjöllunar eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunnar leiddi meðal annars í ljós að Hraðbraut hefði greitt 82 milljónir króna í arð til eigenda sinna árin 2003 til 2009, á sama tíma og ofgreiðslur ríkisins til skólans námu 192 milljónum.

Nefndin segir að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé þungur áfellisdómur yfir fjármálaumsýslu og rekstrarháttum eigenda og stjórnenda Hraðbrautar. Meðferð þeirra á fjárframlögum úr ríkissjóði sé sérstaklega ámælisverð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið er einnig gagnrýnt fyrir að hafa brugðist í grundvallaratriðum eftirlitsskyldu sinni með framkvæmd þjónustusamningsins við Hraðbraut.

Auk þess sem fjárhagsleg óreiða einkennir rekstur hraðbrautar bendir skýrslan á að frammistaða nemenda skólans er undir meðallagi þegar í Háskóla Íslands er komið.

Eins og fram hefur komið greiddu eigendur Hraðbrautar sér 82 milljónir króna í arð, en þetta eru ekki einu arðgreiðslurnar sem mentnamálanefnd fjallar um því svo virðist sem eigendur skólans hafi greitt sér umtalsverðan arð út úr einkahlutafélaginu Faxafen.

Faxafen hefur tekjur sínar af því að leigja Hraðbraut ehf. skólahúsnæði en félagið Faxafen er einmitt í eigu skólastjóra Hraðbrautar og eiginkonu hans.

Frá því að félagið var stofnað hafa arðgreiðslur úr því numið 95 milljónum króna, samkvæmt þeim ársreikningum sem nefndin hefur skoðað.



Hægt er að skoða skýrsluna með því að klikka á hlekkinn hér að neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×