Innlent

Regnboginn verður „Heimili kvikmyndanna"

Borgarráð hefur samþykkt að veita hlutafélagi um rekstur svokallaðs „heimilis kvikmyndanna" í Regnboganum 12 milljón króna rekstrar- og framkvæmdastyrk. Í tilkynningu frá borginni segir að félagið stefni að því að hefja að rekstur kvikmyndahúss í húsinu þann 1. september næstkomandi.

„Hagsmunafélög kvikmyndagerðarfólks og kvikmyndaunnendur stóðu að stofnun hlutafélags um rekstur Regnbogans eftir að hefðbundum kvikmyndahúsrekstri var hætt í húsinu," segir ennfremur. „Hugmyndin er að nýja kvikmyndahúsið sérhæfi sig m.a. í nýjum listrænum og eldri sígildum kvikmyndum auk þess sem áhersla verður lögð á fræðslu og starfsemi sem stuðlar að betra kvikmyndalæsi barna og unglinga. Reksturinn afmarki sig þannig frá rekstri annarra kvikmyndahúsa í borginni."

Jón Gnarr, borgarstjóri, lýsir yfir ánægju sinni með styrkinn til hlutafélags um reksturinn. „Reksturinn í Regnboganum stuðlar ekki aðeins að því að auka fjölbreytni kvikmynda í kvikmyndahúsum borgarinnar heldur glæðir menningu og mannlíf í miðborginni. Með því er unnið að einu meginmarkmiði Besta flokksins að gera borgina skemmtilegri."

Að lokum segir að með styrk Reykjavíkurborgar sé stuðlað að því að koma á fót og gera starfsemina sjálfbæra í framtíðinni. „Annars vegar er gert ráð fyrir að 6 milljónir renni til lagfæringar á húsinu, m.a. andyri, aðkomu og framhlið. Hins vegar verði 6 milljónum varið til að renna stoðunum undir reksturinn fyrstu mánuðina. Stefnt er að því að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir 1. ágúst nk."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×