Innlent

Bæjarstjórinn bjartsýnn þrátt fyrir mikið atvinnuleysi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Sigfússon segir næg tækifæri vera framundan fyrir Suðurnesjamenn.
Árni Sigfússon segir næg tækifæri vera framundan fyrir Suðurnesjamenn.
Atvinnuleysið á Suðurnesjum er helmingi meira en atvinnuleysi á landinu öllu samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Samkvæmt þessum tölum er atvinnuleysið 11,9% á Suðurnesjum en 7,6% á landinu öllu.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesi, segist bjartsýnn á að hægt sé að skapa þúsundir starfa með þeim verkefnum sem eru fyrirliggjandi. Hins vegar geti liðið mánuðir þangað til að þau verða í höfn. Hann segir að ástæðuna fyrir atvinnuleysinu núna megi rekja til þess að varnarliðið hafi horfið á brott og svo komi atvinnuleysið vegna bankahrunsins.

Árni segir að næg tækifæri séu fyrir hendi og mörg verkefni séu þegar komin af stað en þurfi að vinna áfram. „Þetta eru í raun og veru verkefni sem eru komin af stað, hvort sem þau heita gagnaver, einkasjúkrahúsið, álverið, kísilverið, eða ECA verkefnið. Þetta eru allt stór verkefni sem hafa tækifæri til þess að skapa þúsundum manna vinnu. En það er enn beðið meira og minna í öllum þessum áföngum," segir Árni. Hann telur að þegar þessi verkefni verði að raunveruleika muni atvinnuleysi á Suðurnesjum verða minna en að meðaltali á landinu öllu.




Tengdar fréttir

Nærri 12% atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi í júní var 7,6% en að meðaltali voru 12.988 manns atvinnulausir í mánuðinum, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi minnkar um 6,4% frá maí, eða um 887 manns að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×