Innlent

Lögregla athugar ólöglegar arðgreiðslur þingmanns

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Mynd/GVA
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur nú ólöglega arðgreiðslu sem Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi sér út úr útgerðarfélaginu Nesveri til athugunar.

Útgerðarfélagið Nesver, sem er í eigu Ásbjörns og fjölskyldu hans, skuldaði bönkunum á annan milljarð króna í árslok 2008 og tapaði hátt í 600 milljónum það ár sem orsakaði neikvætt eigið fé upp á rúmlega 150 milljónir króna. Þrátt fyrir þá stöðu greiddi Ásbjörn sér 65 milljóna króna arð út úr félaginu vegna rekstrarársins 2008.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra málið nú til athugunar, en ekki er um formlega rannsókn að ræða. Grunur leikur á að arðgreiðslan feli í sér brot á hlutafélaglögum.

Ásbjörn hefur sagt að honum hafi ekki verið kunnugt um að arðgreiðslan fæli í sér lögbrot. Hann hefur í kjölfar umfjöllunar um málið sagt sig frá nefndarsetu í þingnefnd sem er ætlað að fjalla um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið - en ástæðan er sú að hann vilji skapa frið um störf nefndarinnar. Hann hyggst ekki taka sér hlé frá þingstörfum vegna málsins.


Tengdar fréttir

Ásbjörn játar brot á lögum - Bjarni segir brotið ekki hafa áhrif

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, viðurkenndi í Kastljósi Sjónvarps í gær að hafa brotið lög þegar hann greiddi sér og konu sinni tuttugu milljónir króna í arð árið 2007, fyrir árið 2006, þegar eigið fé fyrirtækisins var neikvætt.

Ásbjörn segir sig úr þingmannanefndinni

Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt sig úr þingmannanefndinni sem fjalla á um skýrslu rannsóknarnefndarinnar um bankahrunið. Á dögunum komst í fréttir að Ásbjörn hefði greitt sér ólöglegan arð úr fyrirtæki sínu. Í yfirlýsingu frá Ásbirni segir að hann hafi ákveðið að segja sig frá störfum í nefndinni, til að tryggja fullan frið um störf hennar.

Endurgreiddi arðgreiðslu

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skilað 20 milljóna arðgreiðslu úr fyrirtæki sínu fyrir árið 2006, en þá var eiginfjárstaða fyrirtækisins neikvæð og því um ólöglegan gjörning að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×