Enski boltinn

Sky Sports: Man City að vinna í því að kaupa Dzeko

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edin Dzeko.
Edin Dzeko. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Manchester City ætlar sér að kaupa einn heitasta sóknarmann þýsku deildarinnar í janúar ef marka má fréttir Sky Sports. Edin Dzeko, leikmaður Wolfsburg, hefur verið orðaður við mörg stórlið á síðustu misserum þar á meðal AC Milan og Juventus en City-menn ætla sér nú að krækja í kappann.

Það vantar þó ekki framherja hjá Roberto Mancini, stjóra Manchester City, því Carlos Tevez hefur farið á kostum og þá skoraði Mario Balotelli þrennu í gær. Emmanuel Adebayor og Roque Santa Cruz eru þó líklega báðir á förum sem ætti að opna dyrnar fyrir Dzeko.

Edin Dzeko er 24 ára Bosníumaður sem hefur skorað 66 mörk í 111 deildarleikjum með VfL Wolfsburg frá árinu 2007 auk þess að skora 17 mörk í 31 landsleik fyrir Bosníu. Dzeko hefur skorað 10 mörk í 17 deildarleikjum á þessu tímabili en það hefur þó lítið gengið hjá Wolfsburg-liðinu sem varð þýskur meistari 2008-09.

Roberto Mancini lýsti yfir áhuga sínum á því að fá Dzeko á dögunum en samkvæmt heimildum Sky Sports þá er City tilbúið að borga Wolfsburg 30 milljónir evra strax og bæta síðan 5 milljónum evra við komist liðið inn í Meistaradeildina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×