Innlent

Millilandaflugvellirnir gætu allir lokast

Akureyrarflugvöllur. Horfur eru á að allir millilandaflugvellir hér á landi lokist í kvöld. Mynd/Kristján
Akureyrarflugvöllur. Horfur eru á að allir millilandaflugvellir hér á landi lokist í kvöld. Mynd/Kristján
Horfur eru á að allir millilandaflugvellir hér á landi lokist í kvöld og verður það í fyrsta sinn frá því að eldgosið í Eyjafjallajökli hófst.

Reykjavíkurflugvelli var lokað upp úr klukkan níu, útlit er fyrir að Keflavíkurflugvelli verði lokað upp úr hádeginu og að vellirnir á Akureyri og á Egilsstöðum lokist í kvöld. Þetta er samkvæmt núgildandi öskuspá, en ný spá er væntanleg strax eftir hádegi. Samkvæmt þessari spá er útlit fyrir að Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvellir opnist á ný í fyrramálið.

Bæði Icelandair og Iceland Express flýttu brottförum margra Evrópuvéla í morgun vegna óvissu um flugskilyrði hér og þar yfir meginlandinu. Sumir flugvellir í Bretlandi, Skotlandi, Írlandi og í Hollandi voru lokaðir í morgun, en hafa vereið opnaðir. Síðdegisflug til og frá landinu hefur að mestu verið fellt niður. Flugfélag Íslands og Flugfélagið Ernir hafa aflýst öllu innanlandsflugi fram eftir degi, að minnstakosti.

Nú er hægviðri og askan dreifist í allar áttir. Gosórói var með óbreyttum hætti í Eyjafjallajökli í nótt, en gosstrókurinn fór upp í 8 kílómetra hæð í morgun og dreifist því víða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×