Innlent

Ráðherrar í stjórn Geirs hugsanlega kallaðir fyrir þingmannanefnd

Ekki er útilokað að ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde verði kallaðir fyrir þingmannanefndina sem skoða á sérstaklega brot á lögum um ráðherraábyrgð í aðdraganda hrunsins. Fundirnir verða væntanlega í beinni útsendingu.

Nefnd sem skipuð er níu þingmönnum úr öllum flokkum hefur það hlutverk að skoða möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Nefndin tók til starfa í lok síðasta árs en formaður hennar er Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna. Rætt hefur verið um að fundir nefndarinnar verði sendir út í beinni útsendingu - annað hvort í sjónvarpi eða útvarpi.

Ekki er útilokað að ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde verði kallaðir fyrir nefndina til að svara spurningum í tengslum við ráðherraábyrgð. Fundurinn yrði væntanlega í beinni útsendingu líkt og þekkist víða erlendis þegar ráðherrar eru kallaðir fyrir þingmannanefndir.

Atli Gíslason vildi þó lítið tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband. Hann vildi ekkert útiloka en sagði að ekkert yrði ákveðið fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lægi fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×