Innlent

Mörg skaðabótamál á hendur fjármögnunarfyrirtækjum í undirbúningi

Fjölmörg skaðabótamál á hendur fjármögnunarfyrirtækjum eru nú undirbúningi af hálfu eigenda fyrirtækja sem voru sett í þrot vegna gengistryggðra lána. Í einu slíku máli hleypur bótakrafan á mörg hundruð milljónum króna.

Fjölmörg fyrirtæki voru með gengistryggð lán í líkingu við þau sem nú hafa verið dæmd ólögmæt í hæstarétti.

Fyrirtækin réðu misvel við afborganir af þessum lánum en mörg þeirra voru sett í þrot eða yfirtekin á grundvelli þessara lána.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fjölmörg mál séu nú í undirbúningi þar sem fyrrum eigendur þessara fyrirtækja ætla að krefjast skaðabóta frá fjármögnunarfyrirtækjunum fyrir ólögmætar aðgerðir. Fyrirtækin voru mörg hver með heilbrigðan rekstur en réðu hins vegar ekki við stökkbreyttu lánin.

Björn Þorri Viktorsson lögmaður sagðist í samtali við fréttastofu í dag vera með eitt slíkt mál í undirbúningi. Bótakrafan í því máli er á bilinu 500 til eitt þúsund milljónir króna. Krafan beinist ekki eingöngu að lánafyrirtækinu sjálfu heldur forstjóra þess og stjórnarmönnum.

Þá er ekki útilokað að þeir ráðherrar og embættismenn sem létu þessi lán viðgangast án athugasemda séu einnig skaðabótaskyldir. Í 13. grein laga um ráðherraábyrgð segir:

„hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum, skal og þegar þess er krafist jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×