Innlent

Hátt í 160 milljónum úthlutað til bágstaddra námsmanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ríflega 155 milljónum króna hefur verið úthlutað til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum. Öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur var úthlutað styrk í allt að þrjá mánuði. Alls reyndust 532 námsmenn uppfylla skilyrði fyrir styrkveitingu, segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Eftir bankakreppuna og fréttir af bágri fjárhagsstöðu íslenskra námsmanna erlendis ákváðu menntamála- og samstarfsráðherrar Norðurlandanna að styrkja íslenska námsmenn á Norðurlöndum. Í fyrra var ríflega hundrað milljónum íslenskra króna úthlutað til námsmanna í fjárhagvanda. Í ár veitti norræna ráðherranefndin aftur fjármagni til þessa verkefnis og var auglýst eftir umsóknum á vormánuðum. Styrkirnir eru ætlaðir námsmönnum sem eru í fjárhagsvanda vegna atvinnuleysis yfir sumarmánuðina og hafa hvorki möguleika á námslánafyrirgreiðslu né rétt á atvinnuleysisbótum. Í ár var einnig auglýst eftir styrkbeiðnum frá námsmönnum sem eru að hefja nám á Norðurlöndum haustið 2010 og eru án atvinnu í sumar.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti var falið að hafa umsjón með styrkjunum. Samið var við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins um að annast móttöku og umsýslu styrkumsókna en sérstök úthlutunarnefnd ákvarðaði úthlutanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×