Enski boltinn

Torres ákveður sig eftir tvær vikur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Hetja Spánverja á HM, Andres Iniesta, segir að félagi sinn í spænska landsliðinu, Fernando Torres, muni taka ákvörðun um framtíð sína á næstu dögum.

Torres er upptekinn við að fagna heimsmeistaratitlinum þessa dagana en þegar sigurvíman rennur af honum tekur kaldur raunveruleikinn við á ný og hann þarf að ákveða hvað hann vilji gera.

Chelsea og Man. City eru á meðal þeirra félaga sem hafa sýnt Torres mikinn áhuga en hann sýndi Liverpool mikla tryggð er hann lét mynda sig með trefil félagsins eftir sigurinn á HM.

"Fernando var algjörlega að einbeita sér að spænska landsliðinu og við töluðum ekkert um framtíð hans fyrr en í gær. Hann ætlar að fara í frí með fjölskyldunni núna og eftir það mun hann ræða við forráðamenn Liverpool," sagði Iniesta.

"Hvaða félag sem er verður heppið að hafa hann í sínum röðum, David Villa segir að hann sé fjölhæfasti framherji heims og hann mun ákveða sig á næstu tveimur vikum."

Torres meiddist undir lok úrslitaleiksins á HM og mun þurfa að gangast undir rannsóknir í vikunni. Meiðslin gætu haldið honum utan vallar í tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×