Innlent

Gögn rannsökuð um helgina

Um fjörutíu lögreglumenn vinna að rannsókn á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni, sem fannst á heimili sínu fyrir viku. Fréttablaðið/anton
Um fjörutíu lögreglumenn vinna að rannsókn á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni, sem fannst á heimili sínu fyrir viku. Fréttablaðið/anton

Ekkert nýtt kom fram um helgina og enginn var yfirheyrður í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni fyrir viku. „Helgin var nýtt til rannsókna á gögnum,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar. Hann vildi ekki tjá sig nánar um málið en vísaði til upplýsinga, sem fram komu á blaðamannafundi á föstudag.



Fram kom á fundinum að allnokkur sýni hafi verið tekin af vettvangi morðsins og þau send til rannsóknar í Svíþjóð. Niðurstöður eru væntanlegar innan fjögurra vikna. Friðrik vildi hvorki fara nánar út í það hversu mörg sýnin væru né af hversu mörgum einstaklingum.



Unnusta Hannesar kom að honum látnum á heimili þeirra í Hafnarfirði á sunnudag í síðustu viku. Hannes mun hafa verið einn í húsinu og bendir allt til þess að sá sem verknaðinn framdi hafi haft lykil að því eða komist inn um ólæstar dyr. Hannes hlaut fjölda stungusára.



Lögreglan hefur yfirheyrt tugi manna í tengslum við málið en enginn er í haldi. Hátt í fjörutíu lögreglumenn vinna að málinu. Heimili Hannesar hefur verið innsiglað frá því líkið fannst.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×