Innlent

Félagsmenn taki þátt í kröfugerðarþingi

Formaður VR vill að almennir félagsmenn taki þátt í vinnu vegna kröfugerðar félagsins fyrir komandi kjarasamninga.
Formaður VR vill að almennir félagsmenn taki þátt í vinnu vegna kröfugerðar félagsins fyrir komandi kjarasamninga.
Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR, vill að almennir félagsmenn taki þátt í vinnu vegna kröfugerðar VR fyrir kjarasamningana í haust. Í viðtali við VR blaðið segir Kristinn að könnun verði gerð meðal félagsmanna um þær áherslur sem þeir vilja sjá og í framhaldinu verði haldið sérstakt kröfugerðarþing.

Í vor stóð stjórn VR fyrir svokölluðu stefnuþingi þar sem félagsmenn voru valdir til þátttöku með slembiúrtaki. Var markmið þingsins að móta framtíðarsýn VR og áherslur í starfi. Þótti stefnuþingið takast svo vel að stjórn VR vildi beita sambærilegri aðferð til að undirbúa kröfugerðarvinnuna.

„Okkur finnst mjög mikilvægt að opna starfið meira en verið hefur. Trúnaðarráð, stjórnin og starfsfólk hafa unnið að kröfugerðinni í gegnum tíðina en það er bráðnauðsynlegt að opna vettvang fyrir almenna félagsmenn til að taka þátt,“ segir Kristinn og bætir við að auk kröfugerðarþingsins verði opnuð vefsíða í kringum það þannig að fólk geti komið sínum ábendingum og hugmyndum á framfæri.

Kristinn segist hafa miklar væntingar til þess að fólk taki sem mestan þátt hvort sem það er á stefnuþinginu sjálfu eða í gegnum netið.- mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×