Innlent

Framkvæmdin önnur en í Noregi

Við miðlaraborðið í Kaupþingi í desember 2008. Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að bankarnir hefðu betur dregið frá eiginfé sínu lán sem veitt voru gegn veði í hlutabréfum þeirra sjálfra. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Við miðlaraborðið í Kaupþingi í desember 2008. Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að bankarnir hefðu betur dregið frá eiginfé sínu lán sem veitt voru gegn veði í hlutabréfum þeirra sjálfra. Fréttablaðið/Vilhelm
Álitaefni er hvort bankarnir hefðu ekki betur dregið frá skráðu eiginfé lán sem veitt voru með veði í hlutabréfum þeirra sjálfra. Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á að skort hafi á umræðu um þetta mál í tengslum við endurskoðun reikninga fjármálafyrirtækja.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er bent á að lán bankanna gegn veði í eigin bréfum eða ígildi þeirra hafi hækkað eigið fé þeirra og stækkað efnahagsreikning án þess að nýtt fjármagn hafi komið á móti.

„Jafnframt hefur þetta haft áhrif á eiginfjárhlutfall og áhættugrunn fjármálafyrirtækjanna, sem er grundvöllur og mælikvarði á að heimila útlánahættu gagnvart stórum lántakendum," segir þar og bent á að trygging sú sem fjármálafyrirtæki fær með veði í eigin bréfum sé „ákaflega haldlítil" því veruleg hætta sé á að fyrirtækið láti hjá líða að ganga að slíku veði þegar veðþekjan lækkar samhliða lækkun á markaðsverði hlutabréfa í fjármálafyrirtækinu.

„Við fall fjármálafyrirtækis virka slík útlán í reynd ekki sem hluti af eiginfé, sem ætlað er að verja kröfuhafa félagsins, því að þau verða að engu."

Rannsóknarnefndin bendir á að lítið hafi farið fyrir umfjöllun um það hvort fjármálafyrirtæki hefðu átt að draga lán með veði í eigin hlutabréfum frá eiginfé sínu, en ljóst sé að endurskoðendur þeirra hafi talið að ekki bæri að gera það.

Bent er á álit prófessors Frøystein Gjesdal við Verslunarháskólann í Bergen að samkvæmt norskum lögum, byggðum á reglum Evrópuréttarins, skuli draga lán til kaupa á eigin hlutabréfum frá eiginfé fjármálafyrirtækis. - óká



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×