Íslenski boltinn

Þrír íslenskir dómarar fá að fara í æfingabúðir á vegum UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Jarl Jónsson.
Gunnar Jarl Jónsson.

Dómarinn Gunnar Jarl Jónsson og aðstoðardómararnir Gylfi Már Sigurðsson og Birkir Sigurðarson hafa verið valdir af Dómaranefnd KSÍ til að sækja æfingabúðirá vegum UEFA.

Þar munu þeir njóta þjálfunar og kennslu hæfustu manna í faginu, a.m.t. þeim David Elleray, Jaap Uilenberg og Alan Snoddy. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

UEFA hefur nú hrundið af stað metnaðarfullri áætlun um þjálfun og menntun knattspyrnudómara framtíðarinnar (25 - 30 ára). Í þeim tilgangi hefur verið komið á fót "menntasetri" knattspyrnudómara í höfuðstöðvum samtakanna í Nyon í Sviss.

Verkefninu, sem fengið hefur heitið "CORE" (Centre Of Refereeing Excellence), verður hrundið af stað nk. haust. Árlega mun þannig þremur ungum íslenskum dómurum (1 dómara og 2 aðstoðardómurum) verða boðið að sækja þessar æfingabúðir. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, á sæti í þeim vinnuhóp innan dómaranefndar UEFA sem hrinti þessu framtaki af stokkunum.

Þeir Gunnar, Gylfi og Birkir munu fyrst sækja tveggja vikna námskeið í lok október og síðan aftur viku námskeið í júní á næsta ári. Frammistaða þeirra á keppnistímabilinu hefur verið frábær að mati dómaranefndar auk þess sem metnaður þeirra og ástundun við æfingar hefur verið til eftirbreytni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×