Lífið

Ingó gefur litla bróður tækifæri á Nasa

Bræður munu berjast… um hylli áhorfenda í kvöld. Ingó segir Guðmund bæði myndarlegri og betri söngvara en hann sjálfan.
Bræður munu berjast… um hylli áhorfenda í kvöld. Ingó segir Guðmund bæði myndarlegri og betri söngvara en hann sjálfan.

„Hann er yngri, myndarlegri og betri söngvari. Það er allt sem þarf,“ segir Ingólfur Þórarinsson, söngvari Veðurguðanna.

Ingó og Veðurguðirnir koma fram á Nasa í kvöld. Litli bróðir Ingós, Guðmundur Þórarinsson, stígur á svið með hljómsveitinni og flytur nokkur lög á meðan Ingó hvílir sig. „Ég ætla að stilla honum upp og láta hann syngja. Svo ætla ég að mæma, dansa eða flippa á meðan. Það er planið,“ segir Ingó og viðurkennir fúslega að sá yngri sé endurbætt útgáfa af sjálfum sér. „Hann er ‘92 týpan af þessum sama gamla Volvo.“

En ertu að þjálfa hann upp svo hann geti einn daginn tekið við kyndlinum í Veðurguðunum?

„Nei, ég held að það sé ekki séns að hann nenni því. Hann er bara í boltanum. Enda ætla ég ekki að borga honum fyrir þetta – bara gefa honum pítsu, eins og stórir bræður gera.“

Guðmundur vakti talsverða athygli á dögunum þegar myndband með atriði hans í söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands gekk manna á milli á netinu. Honum líst vel á að stíga á svið með stóra bróður, en þvertekur fyrir að vera betri söngvari og myndarlegri. „Ég ætla aðallega að reyna að slá í gegn í boltanum og vera betri en hann þar. Það hefur alltaf verið markmiðið – hann má eiga hitt,“ segir Guðmundur í léttum dúr, en hann gekk nýlega í raðir úrvalsdeildarliðs ÍBV.

En nú ætlar Ingó að borga þér pítsu fyrir sönginn. Er stóri bróðir svona harður við samningaborðið?

„Nei, engan veginn! (hlær) Launin verða bara gleði og ánægja, held ég. Hann er alltaf að splæsa einhverju á mig þannig að ég held að hann eigi inni hjá mér að ég syngi með honum frítt.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.