Lífið

Setur upp Villiönd Ibsens fyrir norska þjóðleikhúsið

Uppfærsla Baltasars á Pétri Gauti fyrir fjórum árum skildi góðar minningar eftir hjá fólkinu í norska þjóðleikhúsinu, sem hefur beðið hann um að setja upp Villiöndina eftir Henrik Ibsen á Ibsen-hátíð eftir tvö ár.
Uppfærsla Baltasars á Pétri Gauti fyrir fjórum árum skildi góðar minningar eftir hjá fólkinu í norska þjóðleikhúsinu, sem hefur beðið hann um að setja upp Villiöndina eftir Henrik Ibsen á Ibsen-hátíð eftir tvö ár.

Baltasar Kormákur hefur verið fenginn til að setja upp Villiöndina eftir Henrik Ibsen í norska þjóðleikhúsinu árið 2012. Villiöndin á að vera opnunarsýningin á Ibsen-hátíðinni sem leikhúsið heldur annað hvert ár en Ibsen er í hávegum hafður í menningarlífi Norðmanna. „Þetta er mikill heiður fyrir mig," segir Baltasar í samtali við Fréttablaðið. Hann er staddur í Los Angeles að ráða til sín starfsfólk fyrir fyrstu stóru Hollywood-kvikmyndina sína, Contraband, sem Universal-kvikmyndaverið framleiðir með Mark Wahlberg og Kate Beckinsale í aðalhlutverki.

Að sögn Baltasars má segja að upphafið að þessu samstarfi megi rekja til þess að fyrir fjórum árum mætti hann á sömu hátíð ásamt leikurum Þjóðleikhússins og sýndi tvær sýningar á Pétri Gauti.

„Viðbrögðin við þeirri sýningu voru mjög góð og sýningin virðist hafa lifað hjá fólkinu í norska Þjóðleikhúsinu," segir Baltasar en Villiöndin verður að sjálfsögðu sett upp á norsku og verður að öllum líkindum með norskum leikurum í helstu aðalhlutverkum þótt Baltasar útiloki ekki neitt. „Nei, ég meina Gísli Örn er hálfnorskur."

Hins vegar var haustið 2012 eina tímasetningin sem hentaði fyrir leikstjórann, sem verður ákaflega upptekinn á næstunni „Ég verð auðvitað upptekinn við tökur á Contraband, svo er það Djúpið og loks frumsýning á Contraband í mars 2012. Ég hefði því ekki getað gert þetta á öðrum tíma." Leikstjórinn segir það alltaf vissa áskorun að flakka milli kvikmyndaformsins og leikhúslífsins, leikstjóri þurfi til að mynda að geta unnið mun nánar með leikurum í leikhúsinu heldur en þegar hann gerir kvikmynd.

„Og maður hefur alveg heyrt sögur af frægum kvikmyndaleikstjórum sem eru hreinlega hræddir við leikara. Mig langaði hins vegar til að gera þetta því ég vil ekki sleppa hendinni alveg af leikhúsinu," segir Baltasar.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.