Innlent

Kanna afleiðingar þess að loka flugvellinum

Bæjarstjórn Akureyrar ætlar að fá bæjarfélög á landsbyggðinni með í að gera úttekt á afleiðingum þess að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af.

Um helmingur flugfarþega í innalandsflugi flýgur milli Reykjavíkur og Akureyrar. Bæjaryfirvöldum í höfuðstað Norðurlands var því ekki sama um þegar borgaryfirvöld í Reykjavík og samgönguráðherra hættu við smíði samgöngumiðstöðvar, meðal annars á þeirri forsendu að verið væri að undirbúa brotthvarf Reykjavíkurflugvallar.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, segir það gríðarleg vonbrigði að menn skuli vera fallnir frá því að byggja samgöngumiðstöð. Forstjóri Flugfélags Íslands, Árni Gunnarsson, lýsti sömuleiðis í fréttum Stöðvar 2 vonbrigðum með að hætt hefði verið við samgöngumiðstöðina.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í síðustu viku að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess að Reykjavíkurflugvöllur verði aflagður og jafnframt að fá ráðmenn á Ísafirði, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum með í verkefnið. Kanna á efnahagsleg áhrif en einnig öryggissjónarmið.

Eíríkur Björn Björgvinsson segir það ekki bara vegna sjúkraflugsins sjálfs heldur einnig vegna þjónustunnar sem er á Landspítala. Hann tekur sem dæmi þegar fólk af landsbyggðinni þurfi að sækja krabbameinsþjónustu á Landspítala og þurfi að fara oft í viku. Það kosti þetta fólk bæði tíma og peninga ef það þurfi að lenda utan Reykjavíkur. Staðsetning Reykjavíkurflugvallar sé mjög hagstæð hvað þetta varðar.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×