Innlent

Landsvirkjun veitir Ómari risastyrk

Ómar Ragnarsson fær veglega afmælisgjöf frá Landsvirkjun.
Ómar Ragnarsson fær veglega afmælisgjöf frá Landsvirkjun.

Landsvirkjun hefur ákveðið að gefa Ómari Ragnarssyni veglega afmælisgjöf - 2 milljónir króna í styrk. Athafnamaðurinn Friðrik Weisshappel hóf söfnunina handa Ómari en fram kom í viðtali við Ómar í helgarblaði DV að hann væri nær gjaldþrota og hefði ekki efni til að klára einar níu heimildarmyndir sem hann hefði í framleiðslu um íslenska náttúru.

Á heimasíðu Landsvirkjunnar kemur fram að Landsvirkjun hefur ákveðið að taka þátt í söfnun til styrktar Ómari Ragnarssyni og veita honum styrk að andvirði 2 milljóna króna. Markmið framlags Landsvirkjunar er að styðja við upplýsta og vandaða umræðu um umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda, þar sem ólíkar skoðanir koma fram.

Þar segir jafnframt að Ómar sé einn af þeim sem hefur lagt mikið af mörkum til umræðu um umhverfismál og nýtingu náttúrunnar á undanförnum árum. Hann hafi í fjöldamörg ár kynnt almenningi náttúruundur og fyrirbrigði, vakið athygli á umhverfisvandamálum og spurt spurninga um nýtingu og vernd íslenskrar náttúru. Þessar spurningar eru sambærilegar þeim sem Landsvirkjun stendur frammi fyrir í sínum rekstri og framtíðarsýn.

„Landsvirkjun vill leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að aukinni umræðu á þessum vettvangi. Með því að dýpka umræðuna má nálgast vandaða og upplýsta niðurstöðu um nýtingu náttúruauðlinda sem góð sátt á að geta ríkt um í samfélaginu. Framlag Ómars til umræðunnar hefur verið mikilvægt og við styðjum hann til að halda áfram á þessari braut", segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.






Tengdar fréttir

Weisshappel safnar fyrir skuldugum Ómari Ragnarssyni

Friðrik Weisshappel, veitingamaður í Kaupmannahöfn, hefur stofnað Facebook-síðu þar sem hann hvetur fólk til að gefa Ómari Ragnarssyni eitt þúsund krónur í sjötugs afmælisgjöf sem þökk fyrir ómetanleg störf í þágu íslenskrar náttúru.

Ómar týndi debetkortinu sínu

Ómar Ragnarsson kvikmyndagerðarmaður mun ekki upplýsa um árangur fjáröflunarinnar fyrr en á laugardaginn. Hann er í Veiðivötnum og verður þar út vikuna en hann hefur ekki aðgang að netbanka. Ómar hefur auk þess týnt debetkortinu sínu.

Ómar þekkir Weisshappel ekki neitt

„Þetta er eitt það óvæntasta sem hefur gerst fyrir mig,“ segir Ómar Ragnarsson í samtali við Vísi. Friðrik Weisshappel athafnamaður og kaffihúsarekandi, stofnaði Facebook síðu þar sem hann hvetur fólk að gefa Ómari þúsund krónur í afmælisgjöf. Ómar sagði í helgarviðtali við DV að hann væri stórskuldugur og skuldar fimm milljónir vegna kvikmyndagerðar.

Ómar Ragnarsson: Orðlaus, hrærður og þakklátur

„Ég virðist hafa vitað minnst allra um einhvert óvæntasta atvik, sem mig hefur hent á lífsleiðinni, og kem af fjöllum í bókstaflegri merkingu," segir Ómar Ragnarsson á heimasíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×