Carol Van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, taldi Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, ekki skilja hversu mikill vandi hann sjálfur hafi verið í endurreisnarstarfinu eftir bankahrunið.
Van Voorst sendi bandaríska utanríkisráðuneytinu skýrslu um framgöngu Davíðs í Kastljósviðtali í febrúar 2009. Sagði hún Davíð sjá sjálfan sig sem síðustu brjóstvörnina gegn vanhæfum og eyðileggjandi stjórnvöldum. Það væri rétt hjá Davíð að breytingum á lögum um Seðlabankann væri beint gegn honum persónulega.
„En það sem hann viðurkennir ekki er að áframhaldandi vera hans í bankanum er orðin alvarleg truflun á sama tíma og efnahagskreppan dýpkar," skrifaði sendiherrann. - gar