Innlent

Meira af frjókornum í andrúmsloftinu en í fyrra

Ráðleggur fólki með frjóofnæmi að æfa innandyra yfir hásumarið.
Ráðleggur fólki með frjóofnæmi að æfa innandyra yfir hásumarið.
Magn frjókorna í andrúmsloftinu vex yfirleitt mikið þegar líður á júlímánuð og nær síðan hámarki í lok mánaðarins. Magn frjókorna er meira þessa dagana en á sama tíma síðustu ár.

„Um helgina hef ég verið að mæla mjög háar tölur. Á föstudag fór þetta upp í 200 frjó á rúmmetra sem er tala sem ég er ekki vön að sjá svona snemma í júlí," segir Margrét Hallsdóttir, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Margrét segir að hlýindi síðustu vikna séu helsta ástæða mikils frjómagns en að auki hafi veður verið þurrt sem hefur líka áhrif.

Á Íslandi eru það aðallega þrjár tegundir frjókorna sem valda fólki óþægindum: grasfrjó, birkifrjó og súrfrjó. Birkifrjó er mest áberandi í lok maí og júní en þegar júlí gengur í garð eru það aðallega grasfrjóin sem valda fólki óþægindum.

Til að frjókorn valdi ofnæmi þarf það annars vegar að innihalda allergen eða ofnæmisvaka sem er eggjahvítuefni sem líkami fólks sem er með ofnæmi skynjar sem hættulegt efni og hins vegar þurfa frjókornin að vera til staðar í miklu magni, að því er segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

Spurð hvort hún hefði einhver ráð fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi segir Margrét: „Þeir sem hafa grasofnæmi ættu ekki að fara út að hlaupa þegar mest er af grasi í loftinu, heldur þjálfa frekar innandyra. Svo eru ýmsir sem ráðleggja fólki að fara í sturtu þegar það kemur heim."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×